Cape Wrath Trail (1/3) — 15 daga gönguævintýri um skosku hálöndin [English subtitles]
Автор: Halldór Björgvin Emmuson Ívarsson
Загружено: 2025-11-14
Просмотров: 271
Hér deili ég ferðasögu minni um Cape Wrath Trail, sem liggur um vesturhluta skosku hálandanna. Gönguferð sem var krefjandi á köflum en ávallt heillandi. Ég gekk einsamall og bar allt mitt á bakinu.
Þar sem ég fór í þessa gönguferð í páskafríinu mínu í apríl 2025, þó með nokkrum auka dögum, varð ég að fara frekar hratt yfir. Ég hóf gönguna 10. apríl og lauk henni 15 dögum síðar, 24. apríl. Daginn þar á eftir gekk ég svo þangað sem ég gat tekið rútu áleiðis til Glasgow. Í allt var þetta gönguævintýri mitt 403 kílómetrar og uppsöfnuð hækkun var um 12.000 metrar.
Cape Wrath Trail er um 380 kílómetra ómerkt gönguleið og er talin ein af erfiðustu og afskekktustu gönguleiðum Bretlandseyja. Á gönguleiðinni er meðal annars farið yfir fjallaskörð, mýrar, heiðar og ár, um dali og skóglendi og þau voru ófá stöðuvötnin sem ég gekk meðfram. Ég var einstaklega heppinn með veður á minni göngu. Flestir dagar voru sólríkir, eða að minnsta kosti sást til sólar, og þó það rigndi af og til og vindurinn minnti á sig, var það aldrei til trafala. Ég var einnig svo heppinn að rekast á dýr sem ég er ekki vanur að sjá, til dæmis erni, hirti og snáka. Einnig hitti ég gott fólk sem gaman var að spjalla við.
Að öllu samanlögðu vel heppnuð gönguferð sem ég mun ávallt minnast með hlýu.
ℹ️ Á þessari vefsíðu má finna upplýsingar um Cape Wrath Trail gönguleiðina: https://www.walkhighlands.co.uk/cape-...
–––
🕒 Í þessu fyrsta myndbandi af þremur byrja ég á að segja stuttlega frá Cape Wrath Trail gönguleiðinni og síðan segi ég frá fyrstu fjórum dögum göngunnar:
0:00 Kynning (introduction)
4:21 Dagur 1: Loch Linnhe – Cona Glen
11:15 Dagur 2: Cona Glen – Corryhully Bothy
20:18 Dagur 3: Corryhully Bothy – Sourlies Bothy
27:39 Dagur 4: Sourlies Bothy – Kinloch Hourn
–––
Dagur 1:
Dagurinn byrjaði heima á Íslandi og morgunflugi til Glasgow. Þaðan tók ég rútu til Fort William og síðan Corran ferjuna yfir á vesturströnd Loch Linnhe þar sem ég hóf gönguna formlega og tjaldaði svo um kvöldið í dalnum Cona Glen.
Dagur 2:
Ég byrjaði daginn á því að ganga eftir dalnum Cona Glen yfir fjallaskarðið Bealach Allt na Cruaiche að bænum Glenfinnan þar sem ég skoðaði meðal annars Glenfinnan Viaduct (Harry Potter lestarbrúna) og tjaldaði svo við skálann Corryhully Bothy í dalnum Glen Finnan.
Dagur 3:
Á þessum degi lá leið mín meðal annars um fjallaskörðin Bealach Allt n’ Chaoruinn og Bealach an Lagain Duibh og dalinn Glen Dessary. Ég lauk svo deginum í tjaldi við skálann Sourlies Bothy sem stendur við Loch Nevis.
Dagur 4:
Á þessum degi gekk ég meðal annars meðfram fljótinu Carnach áleiðis að fjallaskarðinu Mam Unndalain og þegar yfir það var komið var stefnan sett á skálann Barrisdale Bothy. Lokaleggur þessa dags var meðfram Loch Hourn að Kinloch Hourn þar sem ég dvaldi á gistiheimili yfir nóttina.
–––
📸 Myndbandið er að mestu tekið á GoPro HERO11 Black og einnig var dróninn (DJI Mini 3 pro) með í för sem kom sér vel í því magnaða landslagi sem gangan hefur upp á bjóða.
💬 Myndbandið er með skjátexta á íslensku og ensku. Hægt er að velja sjálfvirka þýðingu á fjölmörg önnur tungumál.
Доступные форматы для скачивания:
Скачать видео mp4
-
Информация по загрузке: